Gíslaskáli rúmar 45-50 manns til gistingar í sex herbergjum. Aðstaða til matseldar er mjög góð. Húsið hefur bjarta og rúmgóða borðstofu, tvær setustofur, vatnssalerni og sturtu. Rafstöð er á staðnum og skálinn er allur rafvæddur, með ljósum og kyndingu.
Í Svartárbotnum er öll aðstaða fyrir hross, hestagerði, heysala og stórt hesthús með góðri reiðtygjageymslu.
Gíslaskáli er í einstaklega fallegu, ósnortnu umhverfi í jaðri Kjalhrauns. Þar eru upptök Svartár, sem er kristaltær bergvatnsá. Henni má fylgja allt niður í Árbúðir, hvort sem er gangandi eða ríðandi. Fjallið Kjalfell er í göngufæri frá Svartárbotnum en það stendur í miðju Kjalhrauni og er náttúruperla.
Í Kjalhrauni eru slóðir Reynistaðabræðra. Frá Gíslaskála er stutt í Gránunes og gömlu vörðuðu leiðina að Beinhól og Grettishelli má ganga á einum degi fram og til baka. Nokkuð austan við Svartárbotna rennur Jökulfallið í miklum gljúfrum. Þar er merkt gönguleið.
Fyrir þá sem eru á bíl er stutt að Hveravöllum og í Kerlingarfjöll.
Gíslaskáli býður fyrsta flokks aðstöðu fyrir ferðamenn á reginfjöllum. Tilvalinn dvalarstaður fyrir þá sem vilja njóta óspilltrar náttúru og öræfakyrrðar á hálendi Íslands.